Laugardagurinn 21. júlí 2018

Skólareglur

Skólareglur Hólabrekkuskóla

Leiðarljós Hólabrekkuskóla er virðing, gleði og umhyggja. Í skólanum er unnið eftir hinni heildstæðu uppbyggingarstefnu; Uppeldi til ábyrgðar. Allir læri að þekkja eigin þarfir og hvernig hægt sé að uppfylla þær í sátt við aðra. Þeir læri líka að mistök eru til þess að læra af og að vandamál er hægt að leysa á uppbyggilegan hátt.

[i]Skólareglur eiga að tryggja nemendum frið til að læra og skapa þeim aðstæður til að lifa í sátt og samlyndi við aðra. Skólareglur Hólabrekkuskóla gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans.

Í Hólabrekkuskóla......
-sýnum við gagnkvæma virðingu, gleði og umhyggju.

Virðing: Við sýnum virðingu með jákvæðum mannlegum samskiptum, umburðarlyndi og fordómaleysi. Við komum fram við hvert annað eins og við viljum að komið sé fram við okkur.
Gleði: Við sýnum gleði með því að njóta þess að vera saman, samgleðjast og hrósa hvert öðru. Við komum fram við hvert annað af jákvæðni og samkennd.
Umhyggja: Við sýnum umhyggju með því að vera tillitsöm, hjálpsöm og látum okkur aðra varða. Við komum fram við hvert annað af hlýju, nærgætni og kurteisi.

- sýnum við hvert öðru vinsemd, göngum hljóðlega um og virðum vinnufrið í kennslustundum.
- stundum við námið af metnaði, samviskusemi og mætum stundvíslega með allt sem til er ætlast.
- erum við ekki með sælgæti, gos, orkudrykki eða tyggjó.
- göngum við vel um húsnæði, búnað, tæki, eigur okkar og annarra.
- notum við ekki hjól, hjólabretti, snjóþotur og sambærileg tæki á skólatíma.
- er notkun farsíma, tónhlaðna (t.d. iPoda) og sambærilegra tækja höfð í samráði við kennara.
- geymum við yfirhafnir, höfuðföt og útiskó í fatahengi og/eða í nemendaskápum, þar sem það á við og/eða í samráði við kennara.

Viðbrögð við brotum á skólareglum

Öllum getur orðið á í hegðun, umgengni og samskiptum. Ávallt er farsælast að viðurkenna mistök sín og gera áætlun um að leiðrétta þau þannig að af þeim megi draga lærdóm til uppbyggingar. Í Hólabrekkuskóla er viðbrögðum við óæskilegri hegðun skipt upp í þrjú þrep. Brot á skólareglum eru skráð í Mentor.

Þrep 1

o Þras, ögrun, rifrildi.
o Truflun í leik og/eða starfi.
o Slæm umgengni.


Viðbrögð og eftirfylgni

o Starfsmaður ræðir einslega við nemanda.
o Nemanda er leiðbeint og lögð er áhersla á að hann þekki regluna og sýni vilja til þess að gera betur næst.
o Lögð er áhersla á virðingu og að starfsmaður hrósi nemanda fyrir samvinnu.


Ef nemandi hefur ítrekað sýnt 1. þreps hegðunarfrávik samsvarar það 2. þrepi og skal viðbrögðum framfylgt samkvæmt því.

Þrep 2

o Særandi eða niðrandi orðbragð, hæðni.
o Neita að fylgja fyrirmælum.
o Ósannsögli, svik, svindl.
o Áreitni, hrekkir, stríðni.Viðbrögð og eftirfylgni

o Kennari hefur samband við foreldra/forráðamenn og skráir atvikið í Mentor. Ef nemandi sýnir ekki bætta hegðun boðar umsjónarkennari foreldra/forráðamenn til fundar og lausna er leitað.
o Ef nemandi hefur ítrekað sýnt 2. þreps hegðunarfrávik samsvarar það 3. þrepi, „skýrum mörkum" og skal viðbrögðum framfylgt samkvæmt þeim.Þrep 3

Það þarf skýr mörk um óásættanlega hegðun til að tryggja öryggi og vellíðan allra í Hólabrekkuskóla. Bregðast þarf við þegar nemandi fer yfir skýru mörkin. Nemandi er yfirleitt fjarlægður úr aðstæðum og í kjölfarið er rætt við hann. Nemandinn fær aðstoð við uppbyggingu sem þýðir tækifæri til að lagfæra mistök og gera rétt.


Dæmi um brot á skýrum mörkum.

o Alvarleg truflun á skólastarfi.
o Ofbeldi og einelti.
o Bein ögrun eða óhlýðni.
o Þjófnaður og skemmdarverk.
o Að nota eða hafa undir höndum vopn, vímuefni, tóbak eða tóbakslíki.


Viðbrögð við brotum á skýrum mörkum.

o Starfsmaður skólans, lætur vita á skrifstofu að skýr mörk hafi verið brotin. Á skrifstofu verður haft samband við skólastjórnanda.
o Skólastjórnandi tekur ákvörðun um framvindu málsins. Hann skráir málið og úrvinnslu þess í Mentor og gerir umsjónarkennara grein fyrir stöðu máls.
o Þegar nemandi hefur verið uppvís að brotum á skýrum mörkum er haft samband við foreldra/forráðamenn og boðað til fundar eins fljótt og unnt er.
o Nemandi fer ekki aftur inn í eigin bekkjaraðstæður fyrr en fundað hefur verið um málið og það til lykta leitt. Skoða þarf frímínútur sérstaklega.
o Lausnaleið er ákveðin í samráði við þá aðila sem málið varðar.
o Finnist ekki viðunandi lausn er unnið samkvæmt verklagsreglum Reykjavíkurborgar.
o Við ítrekuð brot á skýrum mörkum er skólastjóra heimilt að vísa nemanda tímabundið úr skóla.

Uppbygging

o Markmið uppbyggingar er að öllum líði vel, sem og að veita nemendum þjálfun í lífsleikni og sjálfsaga sem endist þeim áfram í lífinu.
o Nemendur læra að mistök eru til þess að læra af og hægt sé að leysa vandamál á uppbyggilegan hátt.
o Nemanda er gefið tækifæri til að ná stjórn á eigin hegðun og leiðrétta mistök sín, bæta hegðun og finna leið til sátta.
o Nemandi finnur leið til að bæta fyrir brot sitt.
o Nemandi gerir uppbyggingaráætlun og setur sér markmið um bætta hegðun, hugsar þannig málið upp á nýtt.

Dæmi um úrræði

o Skriflegt samkomulag.
o Gestasæti hjá öðum kennara.
o Nemanda er boðin aðstoð náms- og starfsráðgjafa.
o Tímabundin tilvísun í sérúrræði innan eða utan skóla.
o Sérstakt eftirlit í frímínútum inni og/eða úti.
o Fundur með öllum kennurum og öðru starfsfólki sem koma að nemandanum.
o Teymisfundir.
o Ráðgjafateymi.
o Aðlöguð stundatafla.
o „Samfélagsþjónusta".
o Tilvísun til sálfræðings/félagsráðgjafa.
o Viðtöl við félagsráðgjafa.
o Málinu vísað til Nemendaverndarráðs.
o Foreldrar fylgja nemandanum í skólanum.
o Brottvísun.

Verklagsreglur Reykjavíkurborgar

Þjónusta við grunnskólanema með fjölþættan vanda
o A. Verklagsregla um viðbrögð við hegðunar- og samskiptavanda nemenda.
o B. Verklagsregla um viðbrögð við skólasóknar- og ástundunarvanda nemenda.
o C. Verklagsregla um viðbrögð við lögbrotum og alvarlegum brotum nemenda á skólareglum.
o Leið 1 Lausnarleið skóla
o Leið 2 Lögregla
o Leið 3 Vímuefnavandi
o Ef grunur leikur á því að nemandi sé undir áhrifum vímuefna í skólanum/á skólalóð.
o Ef grunur er um að nemandi hafi vímuefni undir höndum, dreifir eða selur í skólanum/á skólalóð.
o D. Verklagsregla vegna trúnaðarbrests milli foreldra og skóla.[1] Skólareglur og viðurlög við brotum á þeim eru samin með hliðsjón af lögum um grunnskóla.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska.

Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. (sbr. Lög um grsk. 14. gr. )

Prenta | Netfang