Skip to content

Í skólanum er starfandi viðbragðsteymi við áföllum. Hlutverk þess er að gera vinnuáætlun svo bregðast megi við á skjótan og öruggan hátt þegar áföll verða, svo sem bráð veikindi, alvarlegt slys, dauðsfall eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu og/eða sorgarviðbrögð.

Viðbragðsteymi við áföllum sér um eftirfarandi þætti

 • Að dreifa upplýsingum til allra innan skólans sem málið varðar.
 • Að fylgjast með að nemandinn/starfsmaðurinn fái allan þann stuðning sem mögulegt er að veita innan skólans eins lengi og þörf krefur.
 • Að til sé aðgengilegt fræðsluefni fyrir starfsmenn skólans varðandi viðbrögð við áföllum, slysum og/eða alvarlegum veikindum. http://www.raudikrossinn.is/page/rki_hvad_skyndihjalp_leidbeiningar
 • Að útbúa bókalista fyrir nemendur, kennara og annað starfsfólk yfir barnabækur þar sem fjallað er um sorg og sorgarviðbrögð.

Viðbragðsteymi skólans

Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjórar, náms- og starfsráðgjafi og skólahjúkrunarfræðingur. Auk þess starfa umsjónarkennarar skólans, prestur og sálfræðingur með viðbragðsteymi áfalla eins og þurfa þykir.

Áföll teljast:

 • Alvarleg slys (nemandi, foreldri/systkin eða starfsmaður).
 • Alvarleg veikindi (nemandi, foreldri/systkin eða starfsmaður).
 • Andlát (nemandi, foreldri/systkin eða starfsmaður).

Hlutverk viðbragðsteymis við áföllum

Í meginatriðum er hlutverk viðbragðsteymis að gera vinnuáætlun svo bregðast megi ákveðið og á öruggan hátt við þegar áföll hafa orðið, s.s. bráð veikindi, alvarlegt slys, dauðsfall eða aðrir atburðir, sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu og/eða sorgarviðbrögð. Lykilatriði er að verklag sé skýrt og vinnuáætlun fastmótuð. Viðbragðsteymi skal sjá um að allt starfsfólk fái kynningu á því hvernig bregðast skuli við áföllum.

Strax – hvernig skal bregðast við

 • Tilkynning berst til skóla og tryggt er að upplýsingar komist til viðbragðsteymis og þeirra sem málið varðar.
 • Skólastjóri aflar sér upplýsinga um það sem gerst hefur. Upplýsingar frá ábyrgum aðilum, þ.e. aðstandendum, lögreglu, prestum eða sjúkrahúsi.
 • Viðbragðsteymi er kallað saman. Aðgerðarlisti er útbúinn og gerð er ákveðin verkaskipting. Stuttur en markviss fundur er haldinn.
 • Fundir eru haldnir eins oft og þörf er á.

Sama dag – upplýsingar

 • Allt starfsfólk skólans er kallað saman og upplýsingar gefnar um hvernig skólinn hyggst standa að málum.
 • Nemendur eru upplýstir um atburðinn (skólastofa eða salur). Nemendur þurfa allir að fá upplýsingar á sama tíma.
 • Starfsfólk veitir viðbragðsteymi upplýsingar um nemendur sem eru sérstaklega viðkvæmir varðandi það sem gerst hefur.
  • Greint er frá skipulagi aðgerða skólans á komandi dögum.

Á næstu dögum

 • Hugað er vel að nemendum/starfsfólki og þeim gefinn kostur á að vinna með tilfinningar sínar.
 • Hugsanleg aðstoð frá utanaðkomandi aðilum, t.d. frá kirkju, heilsugæslu og / eða þjónustumiðstöð.

Á næstu vikum og mánuðum

 • Haldið er áfram að styðja og styrkja nemendur og starfsfólk skólans.
 • Hópumræður og einstaklingsviðtöl eru skipulögð eftir þörfum.