Um skólann
Velkomin á heimasíðu Hólabrekkuskóla
Velkomin á heimasíðu Hólabrekkuskóla. Hólabrekkuskóli er í Suðurhólum 10, 111 Reykjavík. Einkunnarorð skólans eru, virðing-gleði-umhyggja. Nemendur eru um það bil 480.
Hólabrekkuskóli tók til starfa haustið 1974.
Það var fyrst í september 1973 sem fræðsluráð Reykjavíkur ræddi um byggingu skólans sem gekk undir nafninu Hólaskóli en var síðar nefndur Hólabrekkuskóli sennilega til aðgreiningar frá Bændaskólanum að Hólum.
Gunnar Hansson arkitekt teiknaði þrjá fyrstu áfanga skólans en Gylfi Guðjónsson arkitekt teiknaði þann fjórða.
Fyrsti áfangi skólans var tekinn í notkun 1974 og 1975 , II. áfangi 1979, III. áfangi að hluta haustið 1984 en að fullu um áramót 1984/1985 og IV. áfangi 2002, 28 árum eftir að skólastarf hófst. Í upphafi var gert ráð fyrir að IV. áfangi yrði íþróttahús en til að hægt yrði að einsetja skólann var ákveðið að byggja almennar kennslustofur og verða því nemendur að sækja íþróttakennslu í íþróttahúsið við Gerðuberg.
Heildarflatarmál skólans er 6.697 fermetrar.
Útilistarverkið á vegg við anddyri skólans gerði Einar Hákonarson myndlistarmaður en listaverkið í anddyri skólans er unnið af nemendum í 9. og 10.bekk. Myndefnið var sótt í ljóðabálk Steins Steinarrs , „Tímann og vatnið“ og var það gert í tilefni þess að Reykjavíkurborg var ein af menningarborgum Evrópu árið 2000.
Nemendur í 10. bekk sem valið höfðu sér myndlist tóku þátt í samnorrænu verkefni skólaárið 1995-1996 sem nefnt var „Ný öld – norræn framtíðarsýn.“ Máluðu þau stór málverk sem voru m.a. sýnd í Listasafni Íslands og Oksnehallen í Kaupmannahöfn en prýða nú veggi skólans.
Fyrsta skólaárið voru skráðir 208 nemendur í barnaskólann og 128 í gagnfræðaskólann en nemendur sem áttu að fara í 5., 6., 7. og 8. bekk voru 91og sóttu Fellaskóla. Alls hefðu því átt að vera 427 nemendur í skólanum þetta fyrsta starfsár og segir það nokkuð um hversu barnafjöldinn var mikill strax í upphafi í Fella – og Hólahverfi. Skólaárið 1981-1982 voru 45% allra grunnskólanemenda í Reykjavík í 5 grunnskólum í Breiðholti.
Í upphafi fyrsta starfsárs var skólahúsnæðið ekki tilbúið til kennslu og var því 9. bekk kennt í Réttarholtsskóla fram í lok okt. en yngri nemendum í Fellaskóla fram í janúar 1975.
Kennarar voru 13 þennan fyrsta vetur auk skólastjóra og ritara.
Í nóvember 1975 voru nemendur 597 og þar af voru 214 nem. í 9. bekk sem aldrei höfðu verið í skólanum áður. Flestir voru nemendur skólaárið 1979 – 1980 eða 1156 og voru þá 12 bekkjardeildir í 9. bekk en nemendur komu úr öllum hverfum Breiðholts í október 2008 voru nemendur 524 og gerir spá um nemendafjölda ráð fyrir að nemendur verði um 500 næstu árin.
Húsnæðisskortur hrjáði skólann í áraraðir og var 6 ára börnum kennt í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi í 5 ár og 9. bekk var kennt í F.B. í einn vetur. Áður en III áfangi skólans var byggður voru 8 færanlegar kennslustofur við skólann.
Félagslíf eldri nemenda hefur alla tíð verið öflugt undir leiðsögn og stjórn kennara. Sem dæmi má nefna að skólinn öðlaðist titilinn„Vitrasti skólinn í spurningakeppni grunnskólanna, Þrautalendingu, skólinn varð Íslandsmeistari þar til hún lagðist af og leiklistarkennsla var öflug og semja nemendur sjálfir og leika jólaleikrit og kabarett á árshátíð unglinganna.
Haustið 1981 bauðst nemendum 7., 8. og 9. bekkja að kaupa sér mjólk í skólanum og endaði sú þróun á því að mötuneyti fyrir nemendur í 1.- 7. bekk var opnað haustið 2002 og haustið 2004 fyrir alla nemendur.
Skólaárið 1988-1999 var foreldrum 6 ára barna boðið upp á gæslu fyrir börn fyrir og eftir kennslu og í janúar 1993 var heilsdagsskólanum komið á fót fyrir 6 – 9 ára börn sem þróaðist í núverandi frístundaheimili.
Fyrsta tölvan, Machintos, kom í skólann á skólaárinu 1989 – 1990. Tölvur í febrúar 1992 vor sjö talsins en árið 1993 var opnað tölvuver með 15 nettengdum tölvum.
Skólinn hefur verið í sambandi við skóla í Danmörku og hafa nemendaheimsóknir á milli skólanna verið nokkrar sem og við skóla í Nuuká Grænlandi.
Kennsluaðferðir eru í sífelldri endurskoðun og hefur skólinn m.a. verið móðurskóli í náttúrufræði, nemendum í 6.-.10. bekk hefur verið getuskipt í stærðfræði og íslensku og verkefnið kallað „regnboginn“ , og„vegamót „er starfsemi þar sem þjálfuð er vinnusemi og námsaðlögun og fleira mætti telja.
Skólanámskrá var fyrst samin 1991-1992 og hafði Sesselja Þórðardóttir aðstoðarskólastjóri umsjón með verkinu og var þetta nýmæli.
Foreldrafélag var stofnað haustið 1979 og hefur það styrkt starfsemi skólans á margan hátt.
Skólanum hefur hlotnast margháttaðar viðurkenningar og verðlaun eins og sjá má á veggjum og í munaskápum skólans.
Skólastjórar hafa verið 3 frá upphafi, Sigurjón Fjeldsted frá 1974 – 1979 og frá 1980 – 2004, Arnfinnur U. Jónsson 1979 – 1980 og Hólmfríður G. Guðjónsdóttir frá 2004 – 2021. Lovísa Guðrún Ólafsdóttir frá 2022.
Stjórnendur skólans
Skólastjóri er Lovísa Guðrún Ólafsdóttir, netfang: lovisa.gudrun.olafsdottir@rvkskolar.is
Aðstoðarskólastjóri er Arnór Heiðarsson, netfang: arnor.heidarsson@rvkskolar.is
Deildarstjóri yngri stigs er Hjördís Þórðardóttir, netfang: hjordis.thordardottir@rvkskolar.is
Deildarstjóri eldra stigs er Heiða Berta Guðmundsdóttir, netfang: heida.berta.gudmundsdottir@rvkskolar.is
Námsráðgjafi er Íris Hrund Hauksdóttir, netfang: iris.hrund.hauksdottir@rvkskolar.is
Umsjónarmaður fasteigna er Sigursteinn Kristjánsson, netfang: sigursteinn.kristjansson@rvkskolar.is