Skip to content

Jafnréttisáætlun Hólabrekkuskóla byggir á:

  • Lögum um grunnskóla nr. 91/2008
  • Aðalnámsskrá grunnskóla 2011
  • Lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2008

Skólastjórnendur Hólabrekkuskóla bera ábyrgð á jafnréttismálum skólans. Þeir gera jafnréttisáætlun, skipa jafnréttisteymi og sjá um framkvæmd, eftirfylgni og endurskoðun jafnréttisáætlunar.

Jafnréttisáætlunin nær til kynjajafnréttis meðal starfsfólks og nemenda Hólabrekkuskóla. Hún byggist á ákvæði í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, 10/2008. Markmið áætlunarinnar er að gæta jafnréttis á milli kynja í skólastarfinu. Í lögum um grunnskóla og í aðalnámskrá grunnskóla er víða fjallað um jafnrétti kynjanna og mannréttindi.

Þar er áherslan á að bæði kynin hafi jafnan rétt til náms, þátttöku í samfélaginu, fjölskyldu- og atvinnulífi. Markmið námsins og kennslunnar og starfshættir skólans skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun m.a. vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar og trúarbragða.

Í aðalnámskránni er lögð áhersla á að allir fái að þroskast á eigin forsendum, geti ræktað hæfileika sína og lifað ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í þeim tilgangi að kenna nemendum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar og forréttinda.

Einkunnarorð Hólabrekkuskóla eru virðing, gleði og umhyggja og eru þau í hávegum höfð í öllu skólastarfinu, bæði hjá nemendum og starfsfólki. Konur og karlar eiga að hafa sömu kjör og réttindi, en samkvæmt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eiga allir að vera jafnir fyrir lögum og njóta sömu mannréttinda. Skólinn hefur gert móttökuáætlun fyrir nýbúa og nýnema, eineltisáætlun sem tekur á eineltismálum og öðrum ofbeldismálum innan skólans, áfallaáætlun sem er virkjuð þegar nemendur eða starfsmenn hafa látist og jafnréttisáætlun sem er ætlað að gæta jafnréttis nemenda og starfsfólks skólans. Í orðinu jafnrétti felst réttlæti, þar sem allir sitja við sama borð. Allt skólastarf skal vera í anda jafnréttis. Jafnrétti á að vera samofið leik og starfi nemenda og starfsfólks. Einn helsti áhersluþátturinn í skólastarfi Hólabrekkuskóla er að nemendur og starfsfólk nái hámarksárangri og skólastarfið miði að því að styrkja og hvetja  sérhvern einstakling til framfara og þroska. Skólinn leggur áherslu á jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.