Skip to content

Í nútíma upplýsingasamfélagi er lestur athöfn sem fólk bregður fyrir sig í meira eða minna mæli á hverjum degi og því afar mikilvægt að ná góðri lestrarfærni sem er undirstaða almennrar menntunar og traustrar sjálfsmyndar. Til að svo megi verða þurfa margir þættir í umhverfi barnsins að vinna saman jafnhliða þroska og þekkingarskilyrðum þess og mynda þannig aðstæður til lestrarnáms. Lestur er ekki einangrað fyrirbrigði heldur á sér stað í félagslegu samhengi. Lifandi og hvetjandi námsumhverfi heima og í skóla gegna þar lykilhlutverki auk líffræðilegra- og tilfinningalegra þátta. Tilgangurinn er að gera nemendur læsa þannig að þeir geti lesið sér til skilnings og ánægju.

Hólabrekkuskóli er þátttakandi í Breiðholtsverkefninu Læsi – allra mál sem leggur áherslu á markvissa læsisvinnu alla skólagönguna. Hluti af verkefninu er að leggja reglulega fyrir nemendur læsisskimanir og koma í framhaldinu með inngrip sem byggir á gagnreyndum aðferðum sem vitað er að skila árangri.

Áherslan í Hólabrekkuskóla er á lestraraðferðir sem vitað er að skila árangri, markvissa málörvun og sjónrænt- og hvetjandi námsumhverfi.