Laugardagurinn 19. janúar 2019

Lestrarstefna Hólabrekkuskóla

Læsi í víðum skilningi
Áætlun 2015 - 2018
sjá áætlun hér

 

Í nútíma- upplýsingasamfélagi er lestur athöfn sem fólk bregður fyrir sig í meira eða minna mæli á hverjum degi og því afar mikilvægt að ná góðri lestrarfærni sem er undirstaða almennrar menntunar og traustrar sjálfsmyndar. Til að svo megi verða þurfa margir þættir í umhverfi barnsins að vinna saman jafnhliða þroska og þekkingarskilyrðum þess og mynda þannig aðstæður til lestrarnáms. Lestur er ekki einangrað fyrirbrigði heldur á sér stað í félagslegu samhengi. Lifandi og hvetjandi námsumhverfi heima og í skóla gegna þar lykilhlutverki auk líffræðilegra- og tilfinningalegra þátta. Tilgangurinn er að gera nemendur læsa þannig að þeir geti lesið sér til skilnings og ánægju. Það er því afar mikilvægt að vel takist til og að nemendur öðlist jákvæða upplifun af lestrarnáminu strax í upphafi og nái fljótt góðum tökum á lestrarfærninni.
Fjölbreytt viðfangsefni, gjöfult námsumhverfi og virkni nemenda verður að vera í fyrirrúmi í skólastarfi og er það hlutverk kennarans að skapa kjöraðstæður, leiðbeina og styðja. Tækifæri til að lesa með fjölskyldu og vinum getur einnig ýtt undir áhuga á lestri. Góð samvinna verður að vera á milli heimila og skóla því foreldrar gegna veigamiklu hlutverki í að rækta móðurmálið og efla áhuga barna sinna á því. Hlutverk kennara er að styðja foreldra í hlutverki sínu með því að kenna þeim aðferðir sem gefast vel við lestrarnámið og gera þá meðvitaða um að þátttaka þeirra í námi barnanna skiptir máli. Samskipti þurfa að vera markviss og gagnleg því afar mikilvægt er að hlúð sé að lestri og skapandi þáttum tungumálsins á sem fjölbreyttastan hátt bæði á heimilum og í skóla.
Meginmarkmiðið með lestri er að geta lesið sér til skilnings. Lesskilningur byggir meðal annars á orðaforða því nauðsynlegt er að skilja þau hugtök sem koma fyrir í textanum. Bakgrunnur, reynsla af ólíkum tegundum ritmáls, áhugi, ályktunarhæfni og þekking á eigin hugsun eru því þættir sem skipta verulegu máli til að skilja og afla sér þekkingar. Lesskilningur byggir einnig á góðum málskilningi sem er samofinn úr mörgum þáttum. Þar kemur til yfirgripsmikil þekking ýmissa orða og nákvæmni í skilgreiningu þeirra. Einnig er mikilvægt að hafa tilfinningu fyrir formgerð málsins, þekkingu á setninga- og merkingarfræði og að geta dregið ályktanir. Þekking á ritmáli og ýmsum prenttáknum er einnig mikilvæg undirstaða lesskilnings. Þegar á heildina er litið má segja að því meiri orðaforða sem og almenna þekkingu sem börn öðlast því betur verða þau í stakk búin að lesa og skilja margs konar texta.

Prenta | Netfang