Laugardagurinn 19. janúar 2019

Gagnvirkir kennsluhættir

Í Hólabrekkuskóla er Netskóli Reykjavíkur notaður í síauknum mæli. Netskólinn er Moodle kerfi sem hefur verið rekið af Reykjavíkurborg síðan á vormánuðum 2011 og er nú notað af kennurum unglingadeildar skólans í íslensku, stærðfræði, ensku, dönsku og einnig að hluta til í náttúrufræði. Þetta kennsluform hefur gert kennurum kleift að færa kennsluna út úr kennslustofunni og gefið nemendum tækifæri til að auka færni sína í fyrrgreindum fögum. Þetta form hefur bæði hentað þeim sem þurfa að bæta sig í náminu og þeim sem standa vel en hafa viljað auka færnina enn frekar. Netskólinn hjálpar því kennurum að uppfylla skilyrði um einstaklingsmiðað nám en er ekki síður hjálplegur til að auka ábyrgð nemenda á eigin námi. Nemendur Hólabrekkuskóla skila verkefnum og taka próf í gegnum síðuna, en að auki hafa þeir aðgang að ýmsu ítarefni og gagnvirkum æfingum. Aðstandendur hafa aðgang að þeim fögum sem börnin þeirra vinna með og geta þannig fylgst með þeim verkefnum sem eru í gangi á hverjum tíma. Næstu mánuðir og ár verða notaðir til að efla notkun gagnvirkrar kennslu enn frekar, t.d. með því að færa notkunina á miðstig skólans og búa þannig skólann vel undir þær breytingar sem munu verða á komandi árum.

Prenta | Netfang