Skip to content

Nemendaverðlaun Skóla- og frístundaráðs 2020

Formaður skóla- og frístundaráðs, Skúli Þ. Helgason, afhenti verðlaunin en þau hafa verið veitt árlega frá því 2003. Verðlaunin fá nemendur sem skara fram úr í námi og starfi í grunnskólum borgarinnar. Einn nemandi eða nemendahópur í hverjum grunnskóla er tilnefndur og fær viðurkenningu. Verðlaunin voru nú afhent í átjánda skipti og eru veitt til nemenda í grunnskólum borgarinnar sem þykir skara fram úr í námi og starfi. Hver grunnskóli tilnefnir nemanda til þessara verðlauna. Verðlaunin eru í formi viðurkenningarskjals og bókar. Alls bárust 31 tilnefning að þessu sinni, frá grunnskólum í Reykjavík, um nemendur sem skara fram úr í námi, félagsfærni, virkni í félagsstarfi eða hafa sýnt frábæra frammistöðu á tilteknu sviði skólastarfs. Aldur þeirra nemenda sem tilnefndir voru í ár spannar árgangana frá 2.-10. bekkjar grunnskólans sem sýnir að nemendur á öllum aldri geta skarað fram úr og verið góðar fyrirmyndir.

Nemandi okkar Sólbjörg Björnsdóttir var tilnefnd  fyrir listræna hæfileika og einstæka danshæfileika, en dansatriði hennar hafa verið stór hluti af Skrekks atriðum Hólabrekkuskóla síðastliðin þrjú ár. Sólbjörg var einning tilnefnd fyrir virkni í félagsstarfi, frumkvæði og leiðtogahæfileika. Sólbjörg er svo sannarlega öðrum nemendum skólans jákvæð fyrirmynd en í kringum hana er ávallt jákvæður andi ríkjandi. Innilega til hamingju með verðlaunin.

Verðlaun voru veitt fyrir;

  • Góðan námsárangur, almennt eða í tiltekinni grein
  • Góðar framfarir í námi, almennt eða í tiltekinni grein
  • Virkni í félagsstarfi, að vera jákvæð fyrirmynd, sýna frumkvæði eða leiðtogahæfileika
  • Frábæra frammistöðu í íþróttum eða listum, s.s. skák, boltaíþróttum, sundi, frjálsum íþróttum, dansi, myndlist eða tónlist
  • Listsköpun eða tjáningu í skólastarfi, s.s. í myndlist, tónlist, leiklist, handmennt, dansi eða upplestri
  • Félagslega færni, samskiptahæfni og framlag til að bæta eða auðga bekkjar- eða skólaanda
  • Nýsköpun eða hönnun, s.s. smíði, hannyrðir eða tæknimennt.

Sú hefð hefur skapast að veita verðlaunahöfum bókarverðlaun og hafa þær bækur sem hlotið hafa Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eða verið tilnefndar, það árið yfirleitt orðið fyrir valinu. Í ár hlutu þrjár bækur barnabókaverðlaunin. Yngstu verðlaunahafarnir fengu bókina Vigdís, bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring. Nemendur í 7. bekk fengu bókina Kjarval málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur. Nemendur í 8. og 10. bekk fengu ýmist bókina Nornin eftir Hildi Knútsdóttur eða Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur en þessar tvær unglingabækur voru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur 2020.