Skip to content

Hólabrekkuskóli réttindaskóli UNICEF

Í samstarfi við UNICEF á Íslandi ætlar Hólabrekkuskóli, frístundaheimilið Álfheimar og félagsmiðstöðin Hundrað Og Ellefu að innleiða Barnasáttmálann í allt starf sitt. Í Breiðholtinu er mikil gróska í menntamálum og það er mikil ánægja og sönn forréttindi að hefja samstarf við þessar stofnanir.

Samingur við UNICEF undirritaður

Föstudaginn 29. nóvember 2019 skrifaði skóla- og frístundasvið ásamt Hólabrekkuskóla, frístundaheimilunum Álfheimum og Hraunheimum og félagsmiðstöðinni Hundraðogellefu undir samning við UNICEF um að hefja þá vegferð að verða Réttindaskóli og Rétttindafrístund UNICEF. Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF undirritaði samninginn af hálfu UNICEF og sagði: „Við hjá UNICEF erum afar spennt og þakklát fyrir að geta bætt metnaðarfullum skóla eins og Hólabrekkuskóla í hóp þeirra skóla sem innleiða Réttindaskólaverkefnið. Við hlökkum mikið til samstarfsins.“

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, betur þekktur sem Barnasáttmálinn fagnaði 30 ára afmæli þann 20. nóvember síðastliðinn og var samningurinn undirritaður á síðasta virka degi afmælismánaðarins. Við það tækifæri sagði Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar að „Í huga og hjarta hvers barns er fólginn kraftur til að bæta heiminn. Okkar hlutverk er að losa hann úr læðingi“ sem er meðal annars gert með því að innleiða Barnasáttmálann, fræða börn um réttindi þeirra og styðja þau í að láta drauma þeirra rætast en Menntastefna Reykjavíkurborgar byggir á grunnstoðum sáttmálans.

Hugmyndafræði Réttindaskólans

Hugmyndafræði Réttindaskóla fyrir skóla- og frístundastarf tekur mið af Barnasáttmálanum og miðar að því að auka virðingu, vernd og innleiðingu mannréttinda. Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna eftir líkaninu leggja sáttmálann til grundvallar í öllu starfi sínu; skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum. Áhersla er lögð á að skapa umhverfi sem byggist á þátttöku, jafnrétti og virðingu. Lovísa Guðrún Ólafsdóttir aðstoðarskólastjóri Hólabrekkuskóla talaði um mikilvægi þessar virðingar og lagði áherslu á að „Fagna fjölbreytileikanum og leyfa öllum börnum að blómstra“.

Markmið Réttindaskóla og Réttindafrístundar er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, ungmenna, kennara, frístundaráðgjafa og annars starfsfólks.  „Við höfum verið með barnaráð hjá okkur síðustu árin og reynum að fá börnin til að vera meira meðvituð um áhrifin sem þau geta haft með að vinna saman. Við munum halda áfram að vinna með þessum hætti í ferlinum að gera Álfheima að Réttindafrístund UNICEF“. Sagði Tanja Ósk Bjarnadóttir forstöðumaður frístundaheimilisins Álfheima. Það er mikilvægt að fá fram sjónarhorn barnanna og skilja hvernig þau sjá hlutina. „Börn eiga hvorki fortíð né framtíð; þau lifa í núinu, sem mjög fá okkar gera.“ sagði Árbjörg Ólafsdóttir forstöðumaður frístundaheimilisins Hraunheima.

Á myndum frá vinstri: Gísli Þorkelsson aðstoðarforstöðumaður Hundraðogellefu, Árbjörg Ólafsdóttir forstöðumaður Hraunheima, Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF, Helgi Grímsson sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Lovísa Guðrún Ólafsdóttir aðstoðarskólastjóri Hólabrekkuskóla og Tanja Ósk Bjarnadóttir forstöðumaður Álfheima.

 

Klara Elfarsdóttir nemandi í Hólabrekkuskóla las upp ljóð fyrir viðstadda í tilefni af undirritun samningsins.

 

Nánari upplýsingar veitir Ellen Calmon verkefnisstýra Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Nýsköpunarmiðju menntamála Skóla- og frístundasviðs ellen.calmon@reykjavik.is