Skip to content

Íslenskuverðlaun unga fólksins 2019


Mynd:
Nemendur okkar þau; María Perla Breiðfjörð, Liwia Wioletta Lenkiewicz og Hreiðar Ási Eydal, ásamt umsjónarkennurum sínum og skólastjórnendum í Hólabrekkuskóla

Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík voru afhent í þrettánda sinn á Degi íslenskrar tungu, laugardaginn 16. nóvember síðastliðinn, og fór athöfnin fram í Norðurljósasal Hörpu. Sjötíu grunnskólanemar tóku við Íslenskuverðlaununum að þessu sinni og óskum við þeim öllum innilega til hamingju með verðlaunin. Sjá frétt af vef Reykjavíkurborgar hér.

Tilnefnd voru:

María Perla Breiðfjörð  fyrir gott vald á íslenskri tungu og getu til að skrifa fallega texta ásamt því að tala rétt mál. María Perla er í heildina framúrskarandi námsmaður og mun standa sig vel í öllum þeim verkefnum sem hún kemur til með að taka að sér í framtíðinni.

Liwia Wioletta Lenkiewicz  fyrir góðar framfarir í íslensku, góðan lesskilning og fyrir að sýna íslenskunáminu mikinn áhuga. Liwia er metnaðarfullur og þrautseigur nemandi sem hefur hvetjandi áhrif á fólkið í kringum sig.

Hreiðar Ási Eydal  fyrir leikni í íslenskri tungu, fjölbreytta og skemmtilega sköpun í sögugerð og fyrir að nýta tíma sinn vel í yndislestur. Hreiðar er algjör lestrarhestur sem sýnir sig í leikni hans með íslenska tungumálið.

Verndari verðlaunanna, frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, flutti ávarp við athöfnina og afhenti stoltum grunnskólanemendum verðlaunin sín. Íslenskuverðlaununum sem er úthlutað árlega í tilefni af Degi íslenskrar tungu er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli. Meðal verðlaunahafa í ár voru ungir lestrarhestar, framúrskarandi upplesarar, tvítyngdir nemendur sem náð hafa góðum tökum á íslensku á skömmum tíma, ljóðskáld og sagnahöfundar.